fimmtudagur, október 02, 2008

Sjósund

Loksins kom að því að maður dreif sig í sjósund. Útlitið var ekkert sérstakt. Um morguninn var tveggja stiga frost en það fór í tveggja stiga hita þegar komið var út að Gróttu um hálf sex eftir vinnu. Eftir að hafa farið í skýluna stukkum við út í sjóinn, ég og vinnufélagi minn. Það tók smá tíma að fá hita í sig en erfiðast var að komast upp fyrir mitti. Eftir smá erfiði var ákveðið að skella sér á bóla kaf. Þá var það versta búið.
Síðan tók nokkrar mínútur að svamla til að fá hitann í sig. Það gerðist þegar maður dofnaði og útlimirnir urður hálf tilfinningalausir sem er mjög sérstök tilfinning.
Selur fylgdist með okkur skrítnu köllunum að svamla þarna. Var furðu spakur greyið og var ákveðið að reyna ekkert að fara nær. Við höfðum yfirburðina á landi en okkur var ljóst að hann hefði yfirburðina í sjónum.
Eftir tæplega 10 mínútur í sjónum var ákveðið að fara á land sem var mjög sérstök tilfinning. Var erfitt að halda jafnvægi sökum dofa en fljótt varð manni funheitt.
Að lokum eftir að hafa þurrkað sér og farið í fötin var kuldinn farinn að koma fram aftur. Þess vegna brunuðum við í heita pottinn úti á nesi. Mælirinn sagði 7° heitur sjór sem að þykir víst nokkuð kalt. Þess má geta að nokkur snjókorn féllu en þrátt fyrir nokkuð erfitt fyrsta skipti er stefnt á að fara aftur fljótlega. Einhver tilbúinn ??? ;)

4 Comments:

At 9:38 e.h., Blogger Hilmar said...

Þú ert Jaki, held ég sleppi þessu barasta.

 
At 11:22 f.h., Blogger Asta said...

Nú verður þú bara að fara að safna skvapi til þess að þetta verði þæginlegra.
Ég held að ég verði líka að segja pass við þessu.

 
At 12:10 e.h., Blogger Halldór Jón said...

Nei takk, held ég láti mér nægja upphitaða sundlaug hér við hliðina á mér :) þarf reyndar að borga aðeins fyrir það en ég held að það sé þess virði.

 
At 2:18 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Kannski eftirá að hyggja ekki svo vitlaus hugmynd í kreppunni að fara í sund í sjónum

Hilmar Harði

 

Skrifa ummæli

<< Home