föstudagur, júlí 22, 2005

Fimmvörðuháls

Ætli það sé ekki kominn tími á að rjúfa þessa þögn í sambandi við ferðina yfir Fimmvörðuháls. Hófst hún um fimmleytið á föstudeginum þegar rúta var tekin frá BSÍ á Skóga. Þar var ég (Reynir) mættur ásamt Hilmari og Herdísi. Einn dulinn Jaki lét sjá sig einnig, Viðar, en ákvað að koma samt ekki með. Ásta og Stebbi biðu við Vífilfell og komu þar inn í rútuna. Fengum við sér rútu alla leið á Selfoss en vorum þar neydd til að skipta við lítinn fögnuð viðstaddra.

Komum við á Skóga um átta leytið og var lagt af stað stuttu seinna. Eftir að hafa loksins komist upp tröppurnar við Skógarfoss voru farnar að renna tvær grímur á hluta leiðangursmanna meðan hinn hlutinn ákvað að fækka fötum við mikinn fögnuð annars gönguhóps sem að fylgdi okkur fast á eftir.

Veðurútlit var sæmilegt og ljóst að nokkur þoka og rigning yrði á leiðinni. Var síðan haldið af stað í ágætu veðri. Ferðin sóttist hratt til að byrja með og var gengið um grasi grónar hlíðar með marga fagra fossa sér á vinstri hönd. Snarlið og pelinn hélt orku og hita á manni.

Þegar komið var að göngubrúnni var fyllt á vatnsbirgðirnar og stefnt á Baldvinsskála. Var þá nokkuð farið að dimma og veður versnað. Sá orðrómur í hópnum um að snúa við var orðinn nokkuð sterkur en þrjóskan hafði betur í þetta skiptið. Eftir langa göngu var loksins komið í Baldvinsskála. Þar var gott hlé tekið og snæddur matur. Hluti gönguhópsins hafði litla orku eftir og nýtti tímann á forlátri dýnu sem að þarna var.

Eftir að hafa hlaðið batteríin var svo haldið aftur af stað. Gekk þessi hluti ferðarinnar hægt til að byrja með. Erfiðar brekkur og snævi þaktur hálsinn aftraði förinni. Að lokum var svo hæsta punkti náð og farið að sjást niður í Þórsmörk. Við það kom auka orka í mannskapinn og haldið var niður Bröttufönnina. Við henni tók Heljarkamburinn og Morinsheiðin. Þar lentum við í svartaþoku og hafði það komið sér vel að stimpla inn hnitin áður en ferðin hófst.

Af Morinsheiðinni var svo gengið niður á Kattarhryggina og komið niður í Þórsmörk rétt fyrir sex. Þar var Steini frændi með búnaðinn okkar og tjöldunum var slegið upp. Ekki var mannskapurinn lengi að sofna og var sofið vel fram á næsta dag. Hluti hópsins ákvað að skella sér í sturtu daginn eftir meðan hinn hlutinn ákvað að nýta tímann til frekari svefns. Að lokum um tvö var ákveðið að grilla pulsur til að fá smá orku í kroppinn. Eftir það var aftur lagst til svefns því rigningin var orðin nokkuð mikil á þessum tímapunkti.

Vöknuðum við aftur áttaleytið um kvöldið og aftur var grillað. Þá rann bjórinn ljúft niður og stuttu seinna var kveikt í varðeldinum. Við hann var setið, sungið og trallað eitthvað frameftir. Þar var mikið af ólíku fólki. Má þar nefna írska járnabindingamanninn sem að brenndi stórt gat á buxurnar sínar, íslenski verkstjórinn sem að var otandi mountain dew að öðrum hverjum manni og hinn íslenski crocodile dundee eins og einhver sagði.

Daginn eftir var haldið heim á leið og sóttist hún mjög hægt sú ferð. Fyrst fannst mikill gasfnykur og var það að lokum leyst. Síðan fór festing við drifskaftið sem að aftraði förinni verulega. Heim var þó að lokum komið. Þar sem að ég tók nú ekki margar myndir þá vil ég sjá nokkrar myndir frá henni Ástu fljótlega birtast á heimasíðunni.

Takk fyrir mig

Áróðursmálaráðherra

4 Comments:

At 8:04 e.h., Blogger Hilmar said...

Það er Akkúrat Vika núna síðan við byrjuðum að Labba, hefði verið til í að hafa veðrið svona eins og það er núna. Annars mjög fín umfjöllun hjá þér ég upplifði ferðina alveg aftur.

 
At 11:44 f.h., Blogger Þórður Már said...

Góð ferðasaga. Fín lesning.

 
At 5:54 e.h., Blogger Asta said...

Þetta var flott ferð og bara gott að það var ekki betra veður, maður hefur þá alla vega ástæðu til þess að fara þetta aftur. Nú er svo bara að halda forminu, við Stebbi drulluðum okkur loksins upp á Móskarshjúkana í gær og er það ekki bara Sveinstindurinn næstu helgi??

Ég hendi kannski inn myndum í kvöld

 
At 9:19 f.h., Blogger Asta said...

Mér finnst endilega að við eigum að splæsa saman í viskí-flösku handa honum Steina frænda, hann var nú svo næs við okkur. Hvað segið þið um það?

 

Skrifa ummæli

<< Home