fimmtudagur, júní 11, 2009

Úlfljótsvatnshlaupið (Úlfljótsfjallshlaupið)

Eftir að hafa skokkað Ægissíðuna nokkrum sinnum verður það svolítið leiðigjarnt. Þess vegna ákvað ég að skrá mig í eitthvað hlaup til að sjá hvernig maður myndi standa sig. Eftir smá umhugsun var ákveðið að Úlfljótsvatnshlaupið yrði fyrir valinu. Leiðarlýsingin sagði um 10 km. eftir malarvegum og rolluslóðum, hljómaði spennandi.

Loksins rann svo upp laugadagurinn 6. júní. Undirbúningurinn hafði verið hafragrautur á hverjum morgni í eina viku til að safna orku. Voru 26 keppendur sem að hófu hlaupið undir Úlfljótsvatnsfjalli skammt frá skátasvæðinu. Hérna er maður spenntur í upphafi hlaups.

Hlaupið byrjaði og hlaupið var meðfram fjallinu til að byrja með. Síðan var tekin vinkilbeyja og farið beint upp meðfram læk sem þar var eftir rolluslóða. Það var nokkuð bratt í hliðarhalla og kjarri. Nokkra læki og mýrar þurfti að stökkva yfir og að lokum komst maður upp á fjallið. Þar tók við mikið þýfi. Ekki var mikið eftir af orkubirgðum eftir fjallið og því tekin kraftganga yfir þýfið. Eftir að hafa sprungið eftir innan við 2 km. og hugsað með sjálfum mér að meira en 8 km. væru eftir leyst mér ekki á blikuna. Að lokum komum við þó á grýttan veg sem maður komst hraðar yfir. Seinni parturinn var mest undan halla og gekk það því betur.

Að lokum var komið í mark á síðustu dropunum hjá Úlfljótsvatnsbústaðnum eftir 10,2 km. Þar fékk maður verðlaunapening ásamt besta vatni í heimi. Hérna fyrir neðan er ég kominn í mark með verðlaunapeninginn minn og aðeins rauðari í framan en í upphafi.


Fór ég síðan að skoða verðlaunapeninginn aðeins og sá þá að hlaupið hét Úlfljótsfjallshlaupið en ekki Úlfljótsvatnshlaupið. Það hlaut að vera þar sem ég var hugsandi allan tímann meðan ég hljóp að það var ekki minnst á neitt fjall sem þyrfti að fara yfir. Kom ég í mark á tímanum 1:00:26 í 14. sæti af 26. Nokkuð sáttur við það bara sem fyrsta hlaup.

Að lokum var boðið upp á kraftmikla baunasúpu með rúsínubrauði. Fór svo hljómsveit að spila og slegið var upp balli.

Frábært hlaup sem ég mun pottþétt taka þátt í aftur á næsta ári.

Yfir og út

Reynir

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home