sunnudagur, júní 14, 2009

Gullspretturinn kringum Laugavatn

Annað hlaup á stuttum tíma var hlaupið laugardaginn 13. júní. Var það Gullspretturinn sem var kapp í kringum Laugavatn með frjálsri aðferð. Stóð í leiðarlýsingu að maður þyrfti að fara yfir mýri, vaða ár og stökkva yfir læki u.þ.b. 8,5 km leið. Hljómaði nokkuð spennandi og ákvað ég því að slá til. Þegar komið var á Laugavatn var frábært veður og um 70 manns ætluðu að taka þátt. Hérna er maður rétt fyrir ræsingu ásamt skaranum.


Náði ég að troða mér ansi framarlega í ræsingunni og ákvað að reyna að hlaupa með fyrstu mönnum (aðeins að ofmetnast). Eftir mikinn sprett í upphafi náði ég góðri stöðu og var fjórði ofan í fyrsta vaðið. Var það smá sjokk fyrir líkamann og náði svolítið upp fyrir nafla. Hafði ég byrjað allt of hratt og fór að síga aftar eftir vaðið þegar hlaupastingurinn kom. Tók svo við mikið mýrlendi þar sem ég ásamt fleirum misstum jafnvægið. Var ákveðið að fara aðeins hægar yfir til að safna orku. Eftir langt hlaup þar sem a.m.k. 5 ár voru farnar þar sem var farið yfir nafla, mýrlendi, kríur, kjarr, heitt vatn og fleira var loksins komið í mark. Þegar þetta er skrifað hef ég ekki official tíma en heyrðist mér það vera 56 eitthvað og tilfinningin sagði að ég væri aðeins fyrir aftan miðju. Hér er vídjó þegar ég kem í mark eftir hlaupið.


Reynslan sem maður dregur eftir þetta hlaup er að hlaupa ekki á hraða sem maður ræður ekki við. Byrja á sínum hraða og auka hann frekar seinna í hlaupinu. Var þetta að mínu mati erfiðara hlaup en Úlfljótsvatnshlaupið (Úlfljótsfjallshlaupið). Þetta var erfitt allan tíman og náði maður aldrei skokktakti. Maður er allan tímann að stökkva yfir eitthvað eða vaðandi. Þetta hlaup verður heimsótt að ári liðnu og tíminn bættur.

Kveðja,

Reynir

2 Comments:

At 2:43 e.h., Blogger Himmi said...

Hvenar verður JAKA-hlaupið að veruleika?

 
At 3:22 e.h., Blogger ReynirJ said...

Já, það þarf að drífa í því. Um leið og það fæst fleiri en einn þátttakandi þá má keppa í því... ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home