Páskafrí
Loksins er maður kominn í páskafrí... gleðilega páska allir saman.
FÉLAG HÁSKÓLAMENNTAÐRA ÚTILEGUMANNA

Uppganga hófst um hálf 11 í frábæru veðri eins og myndirnar bera með sér og sóttist hún ágætlega. Í upphafi var fylgt Skarðsánni upp Skarðdalinn og farið yfir hana við Skarðsfoss. Þaðan var haldið á brattan og tekin bein lína á topp Skarðhyrnu. Þegar þangað var komið sáum við loksins Heiðarhornið og blés það líf í þreytta ferðalanga. Hryggurinn var genginn að Heiðarhorni og fóru tveir undanfarar þangað upp að kanna ísalög. Síðasti spölurinn sóttist frekar hægt en að endingu komust við á toppinn ásamt öðru leiðangursfólki.
Veðrið gat ekki verið betra og var algjört logn á toppnum. Þess vegna var staldrað þar við í dágóðan tíma og notið blíðunnar. Útsýni var frábært og fjöll sem að sáust í fjarska voru m.a. Keilir, Esja, Eyjafjallajökull, Botnsúlur, Skjaldbreiður, Hlöðufell, Langjökull, Baula, Ljósufjöll, Snæfellsjökull, ásamt fleirum.
Óhægt er að segja að þessi ferð hafi tekist mjög vel. Veðrið gat ekki verið betra og færið var gott. Smá ísing á nokkrum stöðum ásamt hnédjúpum snjó á tímabili en ekkert til að kvarta yfir. Það er ekki oft sem að maður gengur á fjall sem er yfir 1000 metrar að vetri til. Að vanda þá stóð isostar orkudrykkur vel fyrir sínu og vorum við vel birgðir af orkusúkkulaði. Döðlurnar og sítrónurúsínurnar okkar fóru aðeins hægar niður. Þá er bara næsta ferð og er hún næsta miðvikudag á Esjuna. Göngugörpunum er strax farið að hlakka til og byrjaðir að telja niður.