sunnudagur, apríl 13, 2008

Eyjafjallajökull

Morgun laugardagsins 12. apríl lögðu tveir ferðalangar í fjallgöngu upp á Eyjafjallajökul ásamt hópi fólks með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Lögðum við af stað úr bænum rúmlega 7 og var lagt á fjallið rúmlega 10. Takmarkið var hæsti tindur Eyjafjallajökuls, Hámundur, sem er samkvæmt sumum kortum 1666 metra yfir sjávarmáli. Í upphafi ferðar var maður spenntur og hlakkaði til átaka dagsins enda er maður sposkur á svip. Var undirbúningur góður hjá okkur báðum sem hafði hafist nokkrum dögum fyrr.
Á leiðinni fengum við algjörlega frábært veður. Held að þegar vindurinn var hvað sterkastur hafi hann náð 2-3 vindstigum. Hilmar situr að snæðingi og horfir dreymandi til fjalla.
Í kringum 700 metra hæð var numið staðar, beltin fest og línurnar dregnar fram. Var það mál manna hversu þæginleg þessi belti eru eftir strekkingu. 1000 metra á snjó- og klakkabrekka bíður eftir að vera troðin niður.
Leiðsögumaðurinn var fremstur, síðan og ég (Reynir) og fyrir aftan mig voru 10 aðrir í línunni. Gekk ferðin vel fyrir sig og ágætu tempói haldið. Þegar efst var komið tók við smá klettabrölt en það hafðist án allra stóráfalla. Eftir um 5 tíma göngu komum við loks á toppinn í algjöru logni. Þó var útsýni ekkert sökum skýja en veðrið var samt frábært.
Eftir að hafa sest niður á toppnum (Hámundi) og borðað var haldið niður. Tóku allir í línunni þá sameiginlegu ákvörðun að ganga á Guðnastein líka. Er það aðeins lægri klettasylla og miklu meira áberandi toppur en Hámundur. Þangað var gengið upp og þá gægðist sólin fram úr skýjunum. Náðist þá myndin hér fyrir neðan af Hámundi. Þar má sjá nokkra hópa á og við toppinn.
Það tók um 3 tíma að ganga niður og tók því gangan alls um 8 tíma. Með bílferðinni var þetta rúmlega 12 tíma ferðalag og því þreyttir einstaklingar sem að komu til Reykjavíkur og Kópavogs um kvöldmatarleytið. Frábær ferð á frábært fjall, ekki eru mörg fjöll sem að eru hærri en Eyjafjallajökull og því fer þetta í hall of fame hjá okkur báðum.
Kveðja úr Vesturbænum,
Reynir Jónsson.

mánudagur, apríl 07, 2008

Vífilfell 6.apríl 2008

klukkan 7 á sunnudaginn 6.apríl lögðum við verðandi hnjúksfariog hnjúksfari í göngu á Vífilsfell. Miðvikudeginum áður var farinn ferð á sama fjall í æfingaprógraminu hjá 66° en hvorugur okkar komst svo við ákváðum að friða samviskuna og klára þennan "tind". Í þeirri miklu frosthörku sem Snæfellsjökull bauð uppá voru dúnúlpurnar dregnar með til frekari prófana.
Gangan gekk vel enda höfum við líklega aldrei verið eins vel búnir og núna, enda reynslan farin að segja til sín. Ísaxir og broddar voru með í för en ekki var broddunum brugðið undir skóna í þetta skiptið. Axirnar komu reyndar að góðum notum við að höggva spor upp síðasta spölinn.

Útsýnið gerist varla betra en á sunnudaginn og mátti sjá meðal annars Vestmannaeyjar, Heklu og Eyjafjallajökul okkar næsta áfangastað.
Sökum hversu veðrið var gott og lék við okkur var náttúrulega við hæfi að smella af nokkrum tugum mynda. Enda fátt skemmtilegra en fyrir aðra Jaka að skoða myndir af mér (Himma) og Reyni. Bara endilega látið mig vita ef þið viljið fá þær í betri upplausn og ég sendi ykkur um hæl :)
Jæja þangað til næsta myndaveisla kemur inn frá Eyjafjallajökli...

Góðar Stundir

Himmi

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Snæfellsjökull sigraður

Það var að morgni laugardags 29. mars að við Hilmar lögðum í ferð með það að markmiði að ganga á Snæfellsjökul. Allir þekkja þetta eldfjall sem að sést svo vel frá Reykjavík á góðviðrisdögum og hefur margur dreymt um að ganga á fjallið. Loksins gafst tækifæri til þess.

Var lagt af stað úr bænum klukkan 7 um morguninn í ágætu veðri með þremur lánsmönnum, pabbi og tveir vinir hans. Uppganga hófst kortér yfir 10 í björtu veðri en hífandi roki og skítkalt. Gekk ferðin upp nokkuð greiðlega en það kólnaði jafnt og þétt þegar ofar dró ásamt því að það hvessti með skafrenningi. Eftir um fjögra tíma erfiði komumst við loksins á toppinn í skítakulda og roki. Útsýnið var ekkert og frost var -12. Einn fararstjórinn sagði að með vindkælingu var frostið rúmlega 30 gráður. Sáust kalblettir í andlitum sumra og voru fingur og tær hætt komnar.

Eitt augnablik birti aðeins til og hlupum við Hilmar og tókum þessa mynd af mér með klettinn í baksýn. Sekúndu seinna hvarf hann í skafrenninginn. Auðvitað stillti Hilmar sér síðan upp með 66°norður flaggið sitt. Sést vel á búnaði hans hve kalt var þarna uppi.
Niðurgangan gekk ágætlega en það tók svolítið á fæturnar. Fannst sumum hún erfiðari en uppgangan. Að lokum þá fékk ég eina mynd lánaða hjá honum Magga sem að trackaði leiðina með nokkrum tölulegum upplýsingum.
Óhætt er að segja að þessi fjallganga var vel þess virði. Hins vegar mun maður fara aftur þarna upp þegar veður er betra til þess að geta notið útsýnisins betur. Stefnan er síðan á Eyjafjallajökul eftir eina og hálfa viku. Það verður gaman...

Reynir